Að leggja barn á brjóst

Móðir og barn
Mikilvægt er að muna að það sem rétt er fyrir eitt par (móður og barn) þarf ekki að vera rétt fyrir annað par. Hvert og eitt barn hefur sína tækni við brjóstið og staðsetur geirvörtuna þar sem það vill hafa hana og gagnast því best. Börn eru fljót að læra og reyna að fá sem mesta næringu til sín, en rannsóknir sýna að hvert og eitt barn hefur sína tækni við að mjólka brjóstið. Það er ekki hægt að heimfæra eina aðferð við að taka brjóst yfir á öll börn.
Hér má sjá stutt myndband sem sýnir muninn á byrjun brjóstagjafar barns með eða án lyfja við fæðingu hér (ekki lengur aðgegnilegt nema gegn gjaldi).

Hvað er til ráða?
Það er einfaldlega best að horfa á barnið og
fara eftir innri sannfæringu, hlusta á hvað hjartað segir og reyna að skilja allt það sem lítið barn segir með látbragði sínu. Hér má sjá myndband sem sýnir hvaða merki barnið sýnir þegar það vill fá brjóstið það er mikilvægt að móðir svari þessum merkjum, en þegar barnið grætur eftir því að fá næringu þá hefur það þurft að bíða of lengi.
Ekki taka ráðin af því og ákveða hvers það þarfnast eftir fyrirfram ákveðnum reglum, því oftast er það brjóstið og nærveran sem barnið er að kalla á og það er hið besta mál að bera barnið framan á sér annaðhvort í
vafningum að hætti afríkukvenna eða ruggupoka (fatli).
Móðir leggur barn á brjóst og barn tekur brjóstið er samspil tveggja einstaklinga. Í okkar vestræna samfélagi hafa margar ungar mæður jafnvel aldrei séð aðra móður gefa barni brjóst þegar þær standa sjálfar frammi fyrir því að eiga að  brjóstfæða barni sínu.  Oft má sjá barn lagt á brjóst í sömu stellingu og þegar barni er gefinn peli, slíkt lofar ekki góðu vegna þess að brjóstagjöf og pelagjöf eru gerólíkar athafnir.
Þetta tvennt má bera saman annars vegar að setja fingur fremst upp í muninnn og sjúga hann og hins vegar að setja allt handarbakið upp í munninn þannig að munnurinn er fullur eins og gerist í brjóstagjöf.  Munnur og gómur vinna allt öðruvísi, þannig að í brjóstagjöf vinna allir vöðvar andlitsins. Því verða mæður að læra að leggja barn á brjóst einnig verður barnið að læra að taka brjóstið og mjólka það. Um helmingur mæðra lendir í vandræðum fyrstu dagana jafnt frumbyrjur sem fjölbyrjur, en vandamál við brjóstagjöf eru algeng.
Hvernig á barnið að liggja við brjóstið?
Brjóstastærð, lögun brjósta og staðsetning geirvörtu ræður öllu um hvað er rétt ásetning  við brjóstið. Það að barn og móðir liggi maga við maga á einungis við þegar mæður eru  með lítil  brjóst og geirvartan vísar fram.  Hins vegar eru brjóst misjöfn að stærð og lögun einnig eru geirvörturnar misjafnlega staðsettar á brjóstinu.  Því er rétt ásetning á brjóst breytileg á milli kvenna.  Rétt ásetning er þegar barn nærist vel og móðir finnur ekki til þannig að báðum aðilum líður vel.
Barnið skal staðsett þannig að neðri vör og haka séu næst brjóstinu.
Áður en barnið er lagt á brjóst á nef barnsins og efrivör að vera í línu við geirvörtuna, til þess að tryggja það að auðvelt sé að örva sogviðbragð hjá barninu um leið og móðirin dregur barnið að sér.
Höfuð, herðar og búkur barnsins skulu vera í beinni línu.
Móðurin dregur barnið að sér í snöggri einfaldri hreyfingu.
Tunga barnsins fyllir nú upp í 1/3 af munni barnsins, þess vegna vísar móðir geirvörtunni fram og upp  í miðju efra svæði gómsins. Geirvartan á að vera rétt fyrir innan mót mjúka og harða gómsins, sem er styttra en fyrri leiðbeiningar segja til um.
Ef nef barnsins pressast upp við brjóstið bendir það til þess að barnið liggi of hátt (ath. vel hvaða stærð á brjóstagjafapúða hentar ef þeir eru notaðir) sem veldur því að hnakkinn sveigist aftur.   Með því að lækka barnið en halda því samt þétt að sér slaknar á hálsi barnsins.  Ef  mikil  snúningur verður á hálsinum getur það átt í erfiðleikum með að kyngja.
Ekki er óalgengt að mæðrum gangi betur að gefa annað brjóstið heldur en hitt.  Einnig finnst sumum nauðsynlegt að styðja við brjóstið, þá sérstaklega þeim sem eru með mjúk  og stór brjóst. Annað hvort með því að leggja flatan lófa efst á brjóstið við rifbeinin eða að lyfta undir það, en þá verður þumalfingur helst að vera ofan á brjóstinu svo að ekki  sé hætta á að mjólkurgangar stíflist sökum þrýstings.
Það hjálpar stundum að lyfta undir brjóstið um leið og barninu er boðið brjóstið, sérstaklega ef brjóstin eru þung og mjúk, og geirvörtunni upp á við til þess að barnið nái góðu taki á gervörtunni og hún fari nógu langt upp í munn þess.
Þegar móðir styður við barnið í gjöf, ætti hún að láta höfuð og axlir barnsins hvíla á upphandleggi sínum.
Varist að halda við hnakka barnsins.
Móðir skal gefa barni brjóst í þeirri stellingu sem henni líkar best. Ef móðir á í erfiðleikum  gæti henni þótt þægilegra að styðja við barnið með andstæðri hendi við brjóstið sem hún  er að gefa, á meðan hún er að kynnast barninu.   Sumum finnst þægilegra að snúa barninu  í sömu átt við bæði brjóstin.  Algengar brjóstagjafastellingarnar  eru;  barn liggur  þversum í kjöltu móður, fótboltastelling eða að móðirin gefur barninu útafliggjandi. Það er mikilvægt að passa að móðir halli sér aftur þannig að slökun verði í líkama hennar í gjöfinni.
Stundum er þetta mun flóknara t.d. þegar barnið hefur legið með vangann þétt upp við öxl í móðurkviði með þeim afleiðingum að andlit þess er ekki samhverft og það getur tekið allt að einn mánuð fyrir barnið að jafna sig. Þetta má auðveldlega sjá með því að horfa á andlit og eyru og gera líkamsmat. Aflögun á andliti þar með talið munni og gómi er það mikill að barnið getur einfaldlega ekki nært sig við brjóstið hversu vel sem móðirin vandar ásetninguna.
Í svona tilfellum er mikilvægt að móðirin næri barnið t.d. með fingurgjöf og eða Calma pela og viðhaldi mjólkurframleiðslu sinni og haldi áfram að bjóða barni brjóst og gefa því tækifæri til að æfa sig. Um leið og barnið hefur jafnað sig þá lærir það smám saman að taka brjóstið og mjólka brjóstið. Það er ekki af neinu sem mæður segi frá því að þær hafi gert allt rétt og vandað sig en samt gekk brjóstagjöfin illa. Hér má finna myndbönd frá Ammehjalpen sem sýnir mismunandi stellingar við brjóstagjöf. Ef barn er ekki að ráða við brjóstagjöfina vegna tímabundinna vandamála þá er mikilvægt að móðir komi mjólkurframleiðslu sinni af stða og viðhaldi henni.
Ásetning er ekki alltaf vandmálið heldur getur það legið mun dýpra.  Ef andlit barns er t.d. ekki samhvert við fæðingu er mikilvægt að móðir komi mjólkurmyndun sinni vel af stað þar sem mjög ólíklegt er að barnið geti komið mjólkutmyndun af stað og viðhaldið framleiðslu móður. Sama á við ef barn fæðist fyrir 39. viku og hefur ekki öðlast þroska eða getu til að mjólka brjóstið.
Hér má finna myndband sem sýnir handmjólkun frá Ammehjalpen.
Heimildir
Geddes, D., Kent, J., Mitoulas, L. og Hartman, E. P. (2007). Tongue movement and intra-oral vacuum in breastfeeding infants. Early Human development, 84, 471-477.
Genna, C. W. og Sandora, L. (2008). Breastfeeding: Normal Sucking and Swallowing. Í Genna, C. W (ritstj.)Supporting Sucking Skills in Breastfeeding Infants (1-41). Sudbury: Jones and Bartlett Publishers.
Kitzinger, S. (1994). The year after childbirth. New York. Charles Scribner´s Sons.
Royal College of Midwives (2002). Successful Breastfeeding. London. Churchill Livingstone.
Riordan, J., Auerbach , G. K. (1998).  Breastfeeding and Human Lactation (Second Edition). Sudbury: Jones and Bartlett Publishers .
Waher, M. (2008). Breastfeeding the late Preterm Infant. Jognn, 37, 692-701.
West, D. og Marasco, L. (2009). The Breastfeeding Mother´s Guide to Making More Milk. United State of Amerika. Mc Graw Hill.
Tekið saman af Arnheiði Sigurðardóttur, febrúar 2011. Endurskoðað maí 2013.
Uppfært apríl 2014