Leiðbeiningar við mjólkun

Brjóstadælur fást í mörgum gerðum. Mikilvægast er að dælan sé örugg, virk og þægileg. Lestu vel meðfylgjandi handbók áður en þú notar dæluna.

Heilbrigt ungbarn er mikið duglegra að tæma brjóstið en nokkur dæla, þess vegna skaltu búast við að barnið sé að fá meira en þú nærð að mjólka með dælu. Mundu að brjóstagjöf er lærð og sýndu þolinmæði. Það getur þurft að gera þó nokkrar tilraunir áður en brjóstagjöfin fer að ganga hnökralaust.

Hér eru nokkrar ábendingar um mjólkun:

  • Byrjaðu alltaf á að þvo þér um hendurnar fyrir mjólkun.
  • Andaðu nokkrum sinnum djúpt til að slaka vel á og flýta fyrir tæmingarviðbragðinu
  • Leggðu heitan bakstur við brjóstið í tíu mínútur fyrir mjólkun og hafðu hann á brjóstinu meðan þú mjólkar (Lansinoh Therapearl)
  • Hafðu eitthvað hjá þér að drekka til að örva tæmingarviðbragðið, vatn, safa eða heitt te

Ákjósanlegir dælingartímar fara eftir því hvenær barnið drekkur. Ef þú þarft að safna í aukagjöf, reyndu þá að dæla á morgnana eftir gjöf, því þá er mjólkin mest að magni.

Til að viðhalda nægri mjólkurframleiðslu er nauðsynlegt að leggja oft á brjóst eða fara í brjóstadælu. Mjólkurframleiðsla getur minnkað með tímanum sérstaklega ef barnið þitt er veikt. Ef það hins vegar fer aftur á brjóst mun framleiðslan aukast að nýju.

Að lokum, mundu eftir að hugsa vel um sjálfa þig. Borðaðu fjölbreytta næringarríka fæðu, drekktu vel og hvíldu þig nóg.
Þýtt og staðfært af Guðrúnu Jónasdóttur Brjóstagjafaráðgjafa IBCLC.