Fyrsta brjóstagjöfin
Fram kemur í niðurstöðum Dewey og félaga (2003) að því lengra sem líður frá því barn fæðist þar til það fer fyrst á brjóst því meira eykst hættan á erfiðleikum við brjóstagjöf.
Lykilatriði í brjóstagjöf
Mikilvægt er að móðir geri sér grein fyrir hvenær barnið er tilbúið til að drekka, það er ekki æskilegt að gefa barni brjóst eftir tímatöflu, því þá getur liðið of langur tími á milli gjafa og barnið því orðið mjög hungrað og óþolinmótt þegar kemur að brjóstagjöfinni. Brjóstið er gefið eftir þörfum þegar barnið sýnir merki þess að vilja nærast. Hér má sjá myndband sem sýnir hvaða merki barnið sýnir þegar það vill fá brjóstið það er mikilvægt að móðir svari þessum merkjum, en þegar barnið grætur eftir að fá næringu þá hefur það þurft að bíða of lengi eða er undir of miklu álagi.
Ásetning á brjóst
Góð ásetning á brjóst þýðir að barninu er leyft að koma sér sjálft á brjóst. Heilbrigt barn sýnir þá hegðun þegar það vill nærast að það smjattar, hreyfir tunguna, ber hendur upp að munni, iðar og hendir sér til á öxl þess sem heldur á því og vill komast að brjóstinu. Hér má sjá myndband frá Ammehjelpen. Hér má finna myndband fra Stradford School of Medicin en þar sýnir Morton hvernig hún aðstoðar móður við að leggja barn á brjóst.
Rétt ásetning á brjóst er þegar barn nærist vel við brjóstið og móðir finnur ekki til og líður vel með brjóstagjöfina. Þannig að ein aðferð á ekki við fyrir alla heldur eru aðferðir við brjóstagjöf sérstakar fyrir hvert og eitt par og er rétt þegar hún gengur vel og skilar tilætluðum árangri fyrir viðkomandi móður og barn. Mikilvægt er að móðir komi sér vel fyrir í hálf útafliggjandi stellingu, því þá fyrst verður slökun í líkama hennar. Ef setið er við brjóstagjöf eins og við tölvu á slökun sér ekki stað í líkama móður. Því er mikilvægt að koma sér vel fyrir. Mæður geta samt gefið brjóst við mismunandi aðstæður það hefur ekkert breyst. Ef ég útskýri þetta nánar t.d þegar móðir gefur brjóst í venjulegum borðstofustól þá verður hún óþarflega þreytt við það að gefa brjóst. Í stað þess að koma sér fyrir, halla sér þægilega aftur og hvíla við að gefa brjóst.
Hér má skoða stutt myndbönd sem sýna mismunandi stellingar við brjóstgjöf á vef Ammehjelpen. Sérstaklega vil ég benda á hálf útafliggjandi stellingu.
Suzanne Colson hefur rannsakað ásetningu barns á brjóst en rannsóknir hennar hafa breytt viðhorfi sérfræðinga um að „ein aðferð“ við ásetningu barns á brjóst sé rétt. Colson telur að við fæðingu barns sýni móðir og barn nátturulega hegðun sem er löngu innbyggð í eðli okkar því geti móðir og barn átt árangursríka brjóstagjöf í mörgum stellingum. Því er það hlutverk heilbrigðisstarfsmannsins að hjálpa móður og barni að hegða ásetningu á brjóst eins og þeim einum er eiginlegt.
Colson telur að börn geti nært sig í mörgum og mjög ólíkum stellingum, að ekki eigi að tala um eina „rétta“ stellingu. Slík umræða geri mæður óöruggar og hræddar um að þær séu ekki að gera “ rétt“. Nær væri að líta á ásetningu barns í stærra samhengi og það er barniðsem fer á brjóst en ekki móðirin sem leggur barn á brjóst. Rannsóknir Hartmans og Geddes hafa einnig fært okkur þá vitneskju að engin tvö börn sjúga eða taka brjóstið eins. Hér má lesa nánar um kenningar Colson. Hér má finna tengil á greinar Suzanne Colson og hér er listi yfir allt efni sem hún hefur gefið út.
Þegar ekki er allt eins og það á að vera
Ef móðir segist finna til og er með sárar geirvörtu þá er eitthvað að, einnig þegar barnið tekur brjóst og sýgur með áfergju en virðist samt vera óánægt og órólegt við brjóstið, grætur og fer af og á brjóstið í gjöfinni. Barnið eyðir miklum tíma við brjóstið en þyngist hægt og pissar lítið. Eða þegar barnið vex mjög hægt skilar litlu frá sér ca 3-4 bleyjum á dag og móðir segir að það drekki í 5 mín og sofni. Stundum eru þetta börnin sem sögð eru þægileg og sofa mikið.
Algeng mistök hjá mæðrum þegar þær gefa brjóst sitjandi er að þær beina nefi barns að geirvörtunni í stað þess að beina munni barns að henni. Einnig er algengt að mæður reyni að ýta/toga brjóst í átt að munni barns í stað þess að færa barn til þannig að munnur þess vísi að geirvörtunni. Sumar geirvörtur vísa fram og aðrar meira til hliðanna. Þannig að ein og sama stellingin á ekki við hjá öllum vegna margbreytileika í lögun brjósta meðal mæðra.
Barn er tilbúið að drekka tekur brjóstið og hendir sér af því og kúast eða grætur. Líkleg skýring er að geirvartan sé of langt upp í munni barnsins og það veldur því að barnið kúast. Í tilfellum sem þessum er best að prufa að leggja barnið aftur á brjóst þegar það hefur jafnað sig og setja þá geirvörtuna ekki eins langt upp í munn þess. Barnið þarf að fá að staðsetja geirvörtuna sjálft upp í sér eins og því líkar best og skilar hvað mestum árangi fyrir það.
Hvaða vöðva notar barnið við að drekka
Ásetning barns á brjóst í upphafi er mjög mikilvæg, samhliða því verður að sjá til þess að barnið næri sig vel við brjóstið. Hvort barn er að drekka sjáum við á hreyfingu vöðva við gagnauga (Temporalis), efri helmingi kinnar næst eyrum (Massete) og vöðvanna við höku hægra og vinstra megin (Mentalis). Hér má sjá stutt myndband af barni að mjólka móðurbrjóst. Takið eftir hvað kinnarnar eru hvelfdar og hvaða vöðvar hreyfast. Hér má sjá myndband sem lýsir því hvernær barn kyngir.
Öndun og kynging
Mikilvægt er að hlusta eftir takti í kyngingu og öndun. Ef seinkun er á kyngingu eða barni svelgist endurtekið á þarf að skoða hvort eitthvað annað ami að barninu. Stundum villir það fyrir okkur að barn getur nært sig ef það fær pela, en nær ekki að mjólka brjóstið en það getur verið vísbending um að eitthvað sé að. Við verðum alltaf að líta svo á að brjóstagjöf sé hin eðlilega leið fyrir barnið til að næra sig. Hvert skref sem barnið tekur í þroska kemur í framhaldi af öðrum þroska og byggir á því sem barnið hefur þegar lært. Því er mikilvægt að grípa inni í ef seinkun eða vöntun er á einhverju þroskastigi. Því það er mun erfiðara að leiðrétta og laga síðar það sem misfórst í upphafi.
Skoða þarf styrkleika í vöðvum, hreyfingar, samhverfu, vökustig, öndun og litarhaft.
Samhverfa
Eins og sjá má á þessari mynd myndar andlit þessa drengs ekki samhverft .Einnig er munnur hans allur skakkur. Því er eflaust mjög erfitt fyrir hann að nærast við brjóstið. Þetta getur lagast jafnvel á nokkrum dögum eða innan við mánuði. Drengurinn á myndunum gekk í gegnum mjög erfiða fæðingu með sogklukkum og töngum. Sog hans var mjög kröftugt þ.a.l. leið honum oft illa, hann þyngdist um c.a 500-700 gr á viku. Þegar börn hafa ekki samhverft andlit þá ná sum þeirra ekki að næra sig og þyngjast þ.a.l. lítið sem ekkert og léttast jafnvel eða öfugt eins og gerðist í þessu tilfelli.
Annað
Mjög mikilvægt er að barnið geti rekið út úr sér tunguna og ef tunguhaft er til staðar þarf að klippa á það sem allra fyrst. Síðast en ekki síst þurfa varir barnsins að innsigla brjóstið og neðri vörin flest út eins og á gullfiski en efri vörin mun minna. Ef festingin á milli efrigóms og varar er mjög stutt getur barnið fengið blöðrur á efri vörina og eins ef vörin er á hreyfingu í gjöfinni. Nef barnsins þarf að vera hreint og vinna eðlilega en nýburar anda með nefinu. Kinnar nýburar eru með fitupúða sem hjálpar þeim við brjóstagjöfina. Fyrirburar vantar þessa fitupúða það veldur því að kinnar þeirra geta fallið inn þegar þau eru að sjúga þetta veldur því að erfiðara er fyrir fyrirbura að viðhalda neikvæðum sogkrafti þegar þau reyna að sjúga til sín næringu. Lögun, galli eða of lítil eða mikil næmni í mjúka eða harða góminum hefur áhrif á brjóstagjöfina. Sérstaklega má sjá þetta hjá fyrirburum sem hafa haft lengi sondu, en gómur þeirra getur verið ofurnæmur og aflagaður eftir langvarandi sondugjöf.
Móðir og barn eru par og úr því verður brjóstagjöf. Stundum passa móðir og barn einfaldlega illa saman og stundum er það aðeins tímabundið vandamál á meðan barnið er að þroskast og stækka.
Hvað þarf að skoða hjá móður
Bil á milli brjósta
Samhverfa brjósta
Þroski brjósta
Geirvarta
Stálmi
Hvað skal gera ef vandamál eru til staðar:
Staðsetja barnið og styðja það í að taka brjóstið eins vel og mögulegt er (brjóstagjöf skili árangri)
Nota mexikanahatt þar sem hann auðveldar barninu að ná geirvörtunni
Mýkja brjóstið með því að móðir mjólki sig örlítið fyrir gjöf
Nota hjálparbrjóst við gjöf svo barnið fái nauðsynlega næringu
Nota handmjólkun og gefa barninu síðan í skeið.
Ef vandamál eru til staðar er mikilvægt að nota vigtun fyrir og eftir gjöf jafnframt að nota hlustunarpípu til að hlusta eftir kyngingu.
Ef barn byrjar að sjúga áður en það fer á brjóst og getur ekki tekið brjóstið.
Þá er best að bíða þar til barnið hættir að sjúga og byrja þá upp á nýtt.
Ef barnið setur tunguna fyrir þegar það ætlar að taka brjóstið upp í sig.
Gefa barninu meiri tíma til að setja niður tunguna áður en það fer á brjóstið
Ýta niður tungunni með fingrinum rétt áður en barnið fer á brjóstið þetta getur hjálpað barni sem ekki setur tunguna sjálfkrafa niður.
Fingurgjöf getur hjálpað barni
Skoða og telja öndun hjá barni og meta hvort það sé tilbúið að næra sig
Mexikanahattur getur hjálpað barninu að taka betur brjóstið og barnið lærir að setja tunguna undir hann
Börnum með tunguhaft gengur sumum vel að mjólka brjóstið og virðist sem tunguhaftið hafi engin áhrif á brjóstagjöfina en önnur börn lenda í verulegum vandræðum (Ramsey, 2004). Sum geta tekið brjóstið en ekki mjólkað það, eða valdið sárum hjá móðurinni þar sem álagið er annað á geirvörtuna en ætti að vera vegna óeðlilegra hreyfinga tungu.
Sjá nánari kynningu á rannsóknum undir liðnum tunguhaft.
Þegar barn getur ekki gripið/tekið brjóstið
Nudda fremrihluta tungunnar með fingurgómnum þar til barnið rekur hana út fyrir neðri góminn.
Ef barnið setur kryppu á tunguna þannig að brjóstið kemst ekki upp í munn þess
Nudda aftarihluta tungunnar, fingurgjöf getur hjálpað við þessar aðstæður.
Ef barnið setur tungubroddinn fyrir munnholið svo brjóstið kemst ekki upp í það
Ýttu tungu barnsins niður og róaðu barnið.
Kjálki
Barnið verður að opna vel munninn og gleypa nægilega mikið af brjóstvef svo það geti mjólkað brjóstið. Hreyfingar kjálkans skulu vera taktfastar með litlum hléum þegar barnið kyngir. Ef eitthvað virðist vera að hreyfingum kjálka er æskilegt að hafa samband við talmeinafræðing.
Kinnar og vangi
Kinnar nýburans snerta brjóstið og skyggja á neðri vörina sem á að vera vel úthverf. Ef barnið er of framarlega á brjóstinu sést það á kinnum þ.e.a.s. áferð þeirra. Einnig verður hreyfing á efri vörinni.
Mikilvægt er að skoða tíðni sogs, kyngingar og öndun. Þegar mjólkin flæðir vel sýgur barnið 4:1:2 sog:kynging:öndun. Þegar hægt flæði á sér stað en samt flutningur á mjólk en ef tíðni soga verður meiri en 4:1:2 þá er það hugsanlega merki um það að barnið er að eyða meiri orku en það er að taka inn við brjóstagjöfina. Mörg sog á milli þess sem barnið kyngir gefur það til kynna að barnið er ekki að innbyrða nægilegt magn mjólkur í brjóstgjöfinni. En þegar líður á gjöfina þegar eftirmjólkin fer að streyma þá er barnið að innbyrða mjög fituríka mjólk og ætti þess vegna ekki að taka það af brjóstinu. Því þarf ávallt að meta hvar barnið er statt í gjöfinni. Nýlegar óbirtar niðurstöður rannsóknar
Geddes og félaga (2010) sýna að það tekur heilbrigt börn (N=16) án vandamála við brjóstagjöfina 10 ± 3 mínútur (626±175 sek) að næra sig við brjóstið. Börnin drukku 9,8 ± 5,0 g/mín. Grunnlína sogkrafts meðal barnanna var mjög breytileg eða frá -2 upp í -60 mmHg. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að staðsetning geirvörtu upp í munni barnanna var mjög breytileg og hvert og eitt mjólkaði brjóstið á sinn hátt. Rannsóknir Susan Colson sýna að börn drekka hvað árangursríkast á milli svefns og vöku.
Ef brjóstagjöfin gengur erfiðlega þarf að greina hvort vandamálið liggi hjá móður eða barni.
Móðir er beðin um að mjólka sig í nokkrar mínútur. Ef flæðið fer vel af stað er vandamálið líklega hjá barni en ef móðir mjólkar aðeins örfáa millilítra er vandamálið líklega hjá móður. Nema vandamálið hafi orðið til hjá móður vegna þess að barnið var ekki að fjarlægja þá mjólk sem myndaðist.
Í þesskonar tilfellum getur verið æskilegt að nota hjálparbrjóstið til að sjá hvort barnið hefur getu til að næra sig við brjóstið þegar nægt framboð af mjólk er til staðar. Ef barnið getur ekki náð til sín næringu þá er vandamálið hjá því. Við þessar aðstæður er mikilvægt að móðir viðhaldi framleiðslu sinni með mjaltavél. Að minnsta kosti 8-12 sinnum á dag og mjólki sig í um tvær mínútur með tvöföldu setti fram yfir að mjólkin hættir að streyma. Við þessar aðstæður er mikilvægt að gefa barninu mjólkaða brjóstamjólk og leggja stutt af og til á brjóst til þess að spara orku þess.
Mikilvægt er að brjóstagjafaráðgjafi geri næringaráætlun fyrir móður við þessar aðstæður.
- Læknir skoði barn, leiti og útiloki líkams- eða taugafræðilegan vanþroska eða galla hjá barninu
- Fundin æskileg leið til að næra barnið á meðan ástandið er metið eða meðhöndlað
- Viðhalda mjólkurframleiðslu móður með sjúkrahúsmjaltavél og tvöföldu mjaltavélasetti
- Hvetja til húð við húð meðferðar/ummönnunar, nota brjóstið til að róa barnið sjá hér.
- Athuga ásetningu og legu barns við brjóst
- Athuga hvort viðeigandi sé að nota sogþjálfun
Samantekt:
- Brjóstagjöf en ekki geirvörtugjöf það þýðir brjóstið á að fara vel upp í barnið. Gott að mýkja brjóstið aðeins fyrir gjöf t.d. með handmjólkun. Staðsetja barnið þannig að það hafi greiðan aðgang að brjóstinu.
- Það er barnið sem fer á brjóst en ekki öfugt. Virki aðilinn er barnið það gefur til kynna að það vilji drekka og ákveður einnig hvenær það vill hætta að drekka. Barnið kemur af stað losunarviðbragði og mjólkar brjóstið.
- Aldrei neyða barn til að drekka né trufla þegar það er að drekka, nema það sé alveg nauðsynlegt.
- Sogkraftur er lykilatriði í brjóstagjöf og hefur þroskast og þróast með manninum í þúsundir ára. En barnið þarf að læra að sjúga brjóstið eftir að það fæðist og slíkt krefst æfingar.
Í þeim tilfellum sem eitthvað er að ætti að skoða ABC aðferðalýsinguna ef vandamál eru til staðar. Ávalt er mikilvægt að fylgjast vel með því hvað er að gerast hjá móður og barni og grípa inn í tímalega ef á þarf að halda. Reikna má út þörf barnsins fyrir næringu sjá reiknivél á kellymom.com. Tekið saman af Arnheiði Sigurðardóttur uppfært mars, 2011.
Heimild
Mizuno, K., Segami, Y., Taki, M og Itabashi, K. (2010). To determine if peri-oral movements and intra-oral vaccum during bottle feeding with Calma are similar to breastfeeding. Óbirt rannsókn Department of Pediatrics, Showa University Japan.
Geddes, D., Hepworth, A., Sakalidis, V., McClellan, H., Kent, J. og Hartmann, P.E. (2010). Comparison of infant feeding at the breast with a teat that releases milk with vacuum only. Óbirt rannsókn University of Western Australia and Breastfeeding Center, King Edward Memorial Hospital for Women, Perth, Australia.
Dewey, K. G., Nommsen-River, L. A., Heinig, M. J. og Cohen, R. J. (2003). Rist factors for suboptimal Infant Breastfeeding behavior, Delayed Onset of Lactation and excess Neonatal Weight loss. Pediatrics, 112, 607-619. Hér.
Genna, C. W. og Sandora, L. (2008). Breastfeeding: Normal Sucking and Swallowing. Í Genna, C. W (ritstj.) Supporting Sucking Skills in Breastfeeding Infants (1-41). Sudbury: Jones and Bartlett Publishers.
Colson, S. (2005). Bringing nature to the fore. The Practising Midwife, 8 (11), 2-6.
Colson, S. (2007). Biologial Nutring (1). The Practising Midwife, 10(9), 42-48.
Ramsay, D. T., Kent, J. C. Hartmann, R. A. og Hartman, P. E. (2005). Anatomy of the lactating human breast redefined with ultrasound imagning. Journal of Anatomy, 206 (6). 525-34.
Sagone, A. (2010). Impact of Baby´s Position and Suckling at the breast on Adequate Growth: Limiting and Facilitating Factors (bls. 31-37). Í Davanzo (ritstj.) Nutrition With Human Milk. Italy, Medela AG.
Schoen, S. Sicher-Hellert, W. og Kersting, M. (2009). Validation of energy requirement equaltions for estimation of breast milk comsumption in infants. Public Health Nutrition, 12 (12), 2309-2316.
Walker, M. (2008). Breastfeeding the late Preterm Infant. Jognn, 37, 692-701.
West, D. og Marasco, L. (2009). The Breastfeeding Mother´s Guide to Making More Milk. Bandaríkin; McGraw Hill Professional.
Mælitæki til að meta framgang brjóstagjafar
Infant Breasfeeding Assessment Tool
Lactch Assessment Documentation Tool
Via Christi Breastfeeding Assessment Tool
Mother-Baby Assessment Tool
Preterm Infant Breastfeeding Behavior Scale mælitæki fyrir fyrirbura
Hér má finna samantekt á mælitækjum um framgang brjóstagjafar kafli 7. Review of breastfeeding assessment tools.
Is baby getting enough LATCHTES hannað til notkunar fyrstu 4 vikurnar en er ekki heppilegt að nota fyrstu 48 stundirnar.
Heimild
Walker, M. (2006) Breastfeeding Mangaement for the Clinician: Using the Evidence.Sudbury, MA: Jones & Bartlett.
Tekið saman af Arnheiði Sigurðardóttur uppfært janúar 2011. Uppfært apríl 2012.
Háskóli Íslands 2014